Lögregla harmar að myndbönd morðingjans hafi verið birt

Lögregla sem rannsakar fjöldamorðin í Virginia Tech háskólanum í bandaríkjunum hefur gagnrýnt þá ákvörðun sjónvarpstöðvarinnar NBC að birta myndbönd sem maðurinn Cho Seung-hui sendi stöðinni á milli þess sem hann myrti fólk í heimavist og einni af skólabyggingum skólans. Segir lögregla myndböndin hafa lítið upplýsingagildi en vera mjög særandi fyrir aðstandendur fórnarlamba árásarinnar. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

„Það hafa margir komist í uppnám af því að sjá þessar myndir,” sagði Steve Flaherty, sem fer fyrir rannsókn málsins á blaðamannafundi í dag. „Þetta eru myndir af þeirri gerð sem fólk á mínu starfssviði þarf að horfa á og það veldur mér áhyggjum að fólk sem ekki er vant því að sjá slíkar myndir skuli hafa þurft að gera það.”

Talsmaður sjónvarpsstöðvarinnar segir upplýsingarnar hins vegar gefa fólki mikilvægar vísbendingar um það hvað manninum hafi gengið til. „Ég held að við munum aldrei skilja til fullnustu hvers vegna þetta gerðist, en ég held að þetta sé það næsta sem við munum nokkru sinni komast því að fá að gægjast inn í huga morðingjans,” segir Steve Capus, yfirmaður NBC News.

Cho sendi stöðunni pakka með texta sem taldi 1.800 orð, 28 myndskeið og 43 myndir. Þar af sýndi ellefu hann beina skotvopni að myndavélinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert