Ríkisstjórn Japans tilkynnti í dag að athugað verði hvort byssulög verði hert í kjölfar morðsins á borgarstjóra Nagasaki og annarri skotárás í Tokyo í dag. Maður var skotinn niður fyrir utan verslun í úthverfi Tokyo í morgun, þremur dögum eftir morðið á borgarstjóranum í Nagasaki. Glæpagengi tengjast flestum voðaverkum.
Talsmaður forsætisráðherrans sagði að litið væri mjög alvarlegum augum á vandamálið og að ríkisstjórnin myndi ekki sitja auðum höndum. Boðað hefur verið til ráðstefnu í næstu viku og á hún að fjalla um leiðir til að losna við skotvopnavandann í landinu.