Cho var „dæmigerður fyrir þá sem fremja fjöldamorð“

Cho Seung-Hui, sem myrti 32 nemendur í Virginia Tech og svipti sig lífi, var „svo að segja að öllu leyti ... dæmigerður fyrir fjöldamorðingja sem ég hef rannsakað undanfarin 25 ár,“ segir bandarískur prófessor í afbrotafræði. „Það er þó ekki þar með sagt að það hefði verið hægt að segja fyrir um ódæðisverk hans.“

Sú mynd af Cho sem yfirvöld í Bandaríkjunum eru að setja saman fellur að þeirri mynd sem ítrekað hefur verið dregin upp af þeim sem framið hafa fjöldamorð: Vinalaus karlmaður sem sætt hefur áreiti, kennir öðrum um ófarir sínar og hyggur á hefnd sem hann skipuleggur í þaula. Maður sem hefur hegðað sér undarlega.

James Alan Fox, prófessor í afbrotafræði við Northeastern-háskóla og höfundur fjölda fræðirita, segir allt benda til að Cho hafi skipulagt voðaverkin með löngum fyrirvara. Skotvopnakaup hans fyrir nokkruðum mánuðum séu til marks um það. Þetta geti einnig útskýrt hvers vegna sjónarvottar hafi sagt hann hafa verið rólegan og yfirvegaðan á meðan hann skaut fólkið.

Hann sætti áreiti skólafélaga sinna, er gerðu grín að óframfærni hans og málhelti. Þegar hann var í framhaldsskóla opnaði hann varla munninn, og þegar hann loks sagði eitthvað hlógu skólasystkin hans að honum og sögðu: „Farðu aftur til Kína!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert