Kristnir Tyrkir óttast vaxandi þjóðernishyggju í landinu

Moska í Tyrklandi.
Moska í Tyrklandi. Reuters

Kristið fólk í Tyrklandi óttast að vaxandi þjóðernishyggja í landinu og minnkandi umburðarlyndi geti leitt til frekari árása á kristið fólk, en þrír voru myrtir þar í fyrradag þegar ráðist var inn í bókaforlag sem m.a. gefur út Biblíuna.

Lögregla handtók fimm menn í gær, grunaða um verknaðinn, og herma fregnir að mennirnir hafi sagt að þeir hafi með þessu verið að koma íslam til varnar.

Tyrkneska blaðið Hurriyet hefur í dag eftir lækni að vísbendingar séu um að fórnarlömbin hafi verið pyntuð.

Leiðtogar kristinna Tyrkja segjast óttast að þjóðernissinnar nýti vaxandi óvissu um framtíð Tyrklands til að hvetja til ofbeldis gegn fólki sem ekki er tyrkneskt og ekki múslímar.

Tilraunir Tyrkja til að fá aðild að Evrópusambandinu ganga ekki vel, og aðskilnaðahreyfing Kúrda í austurhluta landsins er sterk. Og íslamistar í landinu, sem telja Tyrkland standa í baráttu við óvinveitt Vesturlönd, verða sífellt háværari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert