Bandaríska geimferðastofnunin (NASA) hefur látið rýma byggingu Johnson Space Center í Houston eftir að fréttir bárust að byssumaður væri inni í byggingunni. Talsmaður lögreglunnar í Houston segir að búið sé að girða af bygginguna. Grunur leikur á að byssumaðurinn, sem er talin vera hvítur karlmaður á sextugsaldri, sé inni í byggingunni.
Að sögn lögreglu sá starfsmaður NASA mann vopnaðan skammbyssu og þá var tveimur skotum hleypt af.
Lögregla segist ekki hafa náð sambandi við manninn.
Lögreglan var kölluð á staðinn kl 13:40 að staðartíma (kl. 18:40 að íslenskum). Um er að ræða verkfræðiskrifstofur í svokallaðri Byggingu 44.
Verktaki sem starfar fyrir NASA sagði í samtali við breska ríkisútvarpið BBC að einn starfsmaður fyrirtækisins tengist atburðinum.
Fyrirtækið, Jackobs Engineering, segist starfa með lögreglunni að lausn málsins.
Lögreglan í Houston segist hafa sent þyrlu, lögregluhunda og sérsveitarmenn á staðinn.
Í Byggingu 44 er fjarskiptabúnaður og rannsóknarstofur.
Geimferðastjórnstöð NASA er í Johnson Space Center. Þar starfa nokkur þúsund starfsmenn. Í fyrstu var þeim sagt að halda kyrru fyrir þar sem þeir voru, en nokkrum klukkustundum síðar var þeim gefið grænt ljós að á yfirgefa staðinn.