Hillary Rodham Clinton, sem sækist eftir því að verða forsetaefni demókrata í kosningunum í Bandaríkjunum, segir að hún muni gera eiginmann sinn Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseta, að farandsendiherra verði hún forseti. Segist hún ekki geta hugsað sér betri leið til að bæta ímynd Bandaríkjanna. "Ég get ekki hugsað mér neina betri klappstýru fyrir Bandaríkin en Bill Clinton," sagði hún. "Dettur ykkur nokkur annar í hug?" Þá sagði hún eiginmann sinn hafa heitið því að gera hvað sem hún biðji hann um verði hún kjörin forseti.
"Ég er heppin að eiginmaður minn skuli hafa þetta mikla reynslu," sagði hún og benti á að hann og fleiri fyrrverandi forsetar hefðu unnið mikið að mannúðarmálum m.a. í kjölfar flóðbylgjunnar miklu í Suðaustur-Asíu. "Ég hef trú á því að hægt sé að nýta krafta fyrrverandi forseta til að bæta ímynd okkar erlendis. Við þurfum á því að halda í kjölfar stríðsins í Írak sem hefur einangrað Bandaríkin og ýtt undir andúð á þeim um mestallan heim."