Bandarískur háskólakennari rekinn eftir að hann þóttist skjóta á nemendur

Aðjunkt í Emmanuelháskólanum í Boston í Bandaríkjunum var rekinn eftir að hann benti með tússpenna á nokkra nemendur sína og þóttist skjóta þá. Þetta gerðist á miðvikudag, tveimur dögum eftir að nemandi við Virginia Tech háskólann skaut 32 til bana á skólasvæðinu.

Nicholas Winset, 37 ára, sem kenndi við viðskiptadeild skólans í Boston, segist hafa viljað ræða við nemendur sína um vopnaeign, hvort bregðast ætti við ofbeldi með ofbeldi og viðbrögð almennings við harmleikjum á borð við þann í Virginia Tech. Var það gert að ósk yfirmanna skólans.

Meðan á fyrirlestrinum stóð þóttist Winset skjóta á nokkra nemendur. Einn þeirra „skaut" til baka á Winset til að leggja áherslu á að hugsanlega hefði verið hægt að stöðva byssumanninn ef nemendur eða kennarar hefðu verið vopnaðir.

Á föstudag fékk Winset uppsagnarbréf og honum var bannað koma inn á skólalóðina. Winset hefur sett 18 mínútna langt myndskeið á vefinn YouTube þar sem hann gagnrýnir skólann og ver hendur sínar og segir að þetta mál hljóti að hafa alvarleg áhrif á opna umræðu.

Blaðið Boston Globe hefur eftir nemanda, sem var í umræddum tíma, að sýnikennsla Winsets hafi ekki hneykslað viðstadda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert