Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, segir að Borís Jeltsín, fyrrum forseti Rússlands, hafi verið merkilegur maður sem leikið hafi þýðingarmikið hlutverk á tímamótum í sögu landsins. Jeltsín lést í morgun 76 ára að aldri. Leiðtogar Eystrasaltsríkjanna sögðu í dag, að Jeltsín hefði átt stóran þátt í því, að löndin fengu sjálfstæði að nýju.
Fleiri leiðtogar hafa minnst Jeltsíns. Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, segir í yfirlýsingu, að Jeltsín hafi án efa verið einn af mikilmennum samtímans þrátt fyrir alla sína veikleika. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, sagði að Jeltsíns verði minnst fyrir það hugrekki sem hann sýndi við að ryðja Rússlandi nýja og lýðræðislega braut.
Jeltsín átti langan og umbrotasaman stjórnmálaferil, sem hófst árið 1968 þegar hann varð leiðtogi kommúnistaflokksins í Sverdlovsk í Úralfjöllum. Hér á eftir er stiklað á stóru varðandi feril hans:
1985
24. desember útnefndi Mikhaíl Gorbatsjov, þáverandi leiðtogi Sovétríkjanna, Jeltsín aðalritara kommúnistaflokks Moskvu.
1986
Í febrúar var Jeltsín skipaður í stjórnarnefnd sovéska kommúnistaflokksins.
1987
11. nóvember var Jeltsín rekinn úr embætti aðalritara kommúnistaflokks Moskvu eftir að hann gagnrýndi Gorbatsjov.
1988
17. febrúar var Jeltsín vikið úr stjórnarnefnd Sovétríkjanna og missti ráðherraembætti í maí.
1989
Jeltsín snýr aftur á hið pólitíska svið og er kosinn á sovéska þingið með 89,4% atkvæða. Á þinginu verður hann leiðtogi „lýðræðislegu stjórnarandastöðunnar."
1990
12. júní var Jeltsín kjörinn forseti sovéska þingsins. Í júlí sagði hann sig úr sovéska kommúnistaflokknum á 28. þingi flokksins.
1991
Jeltsín var 12. júní kjörinn forseti Rússneska sambandsríkisins með 57,4% atkvæða.
Eftir að harðlínumenn reyndu að steypa Gorbatsjov af stóli í ágúst fór Jeltsín fyrir mótmælaaðgerðum almennings gegn valdaræningjunum utan við rússneska þinghúsið í Moskvu.
6. nóvember fyrirskipaði Jeltsín, að kommúnistaflokkurinn yrði leystur upp á rússnesku landssvæði.
8. desember lýstu Jeltsín og forsetar Úkraínu og Hvíta-Rússlands yfir því að Sovétríkin hefðu verið leyst upp.
1992
Eftir að Gorbatsjov sagði af sér í janúar hóf Jeltsín umbætur á efnahagskerfi Rússlands með það fyrir augum að koma á markaðshagkerfi. Verðstöðvun er afnumin og einkavæðing ríkisfyrirtækja hefst.
1993
Jeltsín leysti upp rússneska þingið í september sem leiddi til uppreisnar stjórnarandstæðinga. 3.-4. október fyrirskipaði Jeltsín að skotið yrði úr skriðdrekum á þinghúsið þar sem stjórnarandstæðingar höfðu búið um sig. 12. desember var ný stjórnarskrá samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu og kosningar fóru í kjölfarið fram.
199411. desember fyrirskipar Jeltsín hersveitum að ráðast inn í Tétsjníu. Ófriðurinn þar hélt áfram næstu 18 mánuði og tugir þúsunda létu lífið.
1995
Jeltsín fékk tvö hjartaáföll, í júlí og október og hann var frá störfum í marga mánuði.
1996
Í júní fékk Jeltsín enn annað hjartaáfall, skömmu áður en síðari umferð forsetakosninga í Rússlandi fór fram. Talsmenn Kremlar sögðu aðeins að forsetinn hefði misst röddina. 3. júlí var Jeltsín endurkjörinn forseti Rússlands með 53,8% atkvæða.
1997
Jeltsín ferðaðist í maí til Parísar til að skrifa undir samning við NATO-ríki. Þar féllust Rússar með semingi á stækkun NATO.
Í október sama ár tilkynnti Jeltsín að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.
1998
Efnahagskreppa steðjaði að Rússlandi eftir að gengi rúblunnar lækkaði verulega. Vinsældir Jeltsíns dvínuðu verulega vegna efnahagsþrenginga almennings og nýrra ásakana um spillingu háttsettra embættismanna.
1999
Jeltsín skipaði Vladímír Pútín, þáverandi yfirmanna rússnesku öryggisþjónustunnar, í embætti forsætisráðherra 9. ágúst og sagði um leið að hann vildi að Pútín tæki við af sér.
31. desember tilkynnti Jeltsín í sjónvarpsávarpi, að hann hefði sagt af sér embætti og Pútín hefði tekið við.