Greint var frá því fyrir stundu að Borís Jeltsín, fyrrum Rússlandsforseti væri látinn. Jeltsín, sem var 76 ára, lést í Moskvu í morgun, samkvæmt upplýsingum talsmanns hans. Jeltsín var fyrsti þjóðkjörni forseti Rússlands og sat hann á forsetastóli á árunum 1991 til 1999. Ekki hefur verið greint frá dánarorsök hans en hann þjáðist m.a. af hjartveiki.
Jeltsín var kjörinn forseti Rússlands þann 12. júní árið 1991 með 57% atkvæða. Efnahagsumbætur sem gerðar voru undir forystu hans mæltust hins vegar mjög misjafnlega fyrir og kenna honum margir um það hve mjög lífskjör margra Rússa versnuðu í valdatíð hans.
Í desember árið 1991 hét Jeltsín því að leiða landið frá miðstýrðu efnahagskerfi kommúnismans til opins markaðskerfis. Spilling þótti hins vegar setja mark sitt á framkvæmd breytinganna og efnuðust margir samstarfsmenn Jeltsíns gífurlega á þeim á sama tíma og kjör almennings versnuðu mjög.
Jeltsín ávann sér virðingu umheimsins er hann stóð gegn harðlínumönnum sem gerðu valdaránstilraun í Moskvu árið 1991. Undir lok valdatíðar Jeltsíns settu spillingarásakanir og drykkja hins vegar mark sitt á samskipti hans við umheiminn og alla umfjöllun um hann. Þá var gagnrýnt hvernig hann kom eftirmanni sínum Vladimir Pútín, þáverandi forsætisráðherra, í embætti forseta án þess að til kosninga kæmi.
Jeltsín var bóndasonur fæddur í borginni Jekaterinburg í Úralfjöllum árið 1931. Hann var menntaður byggingaverkfræðingur og starfaði sem slíkur áður en hann komst til áhrifa innan kommúnistaflokksins.