Fundu 20 tonn af kókaíni í flutningaskipi

Bandaríska strandgæslan sagðist í dag hafa lagt hald á 20 tonn af kókaíni um borð í flutningaskipi við strendur Panama. Þetta gerðist um miðjan síðasta mánuð en efninu var í dag skipað upp á hafnarsvæði strandgæslunnar nálægt Oakland í Kalíforníu.

Um er að ræða eitt mesta fíkniefnamagn, sem lagt hefur verið hald á í einu en verðmæti kókaínsins í götusölu er áætlað 600 milljónir dala, jafnvirði nærri 39 milljarða króna.

Reutersfréttastofan hefur eftir Brock Eckel, liðsforingja, að um sé að ræða stærsta fíkniefnamál, sem komið hafi upp í Bandaríkjunum og eitt mesta fíkniefnamagn, sem nokkru sinni hafi fundist um borð í skipi.

14 manna áhöfn frá Panama og Mexíkó var um borð í flutningaskipinu þegar varðskipið Sherman stöðvaði það. Áhöfnin var óvopnuð og sýndi enga mótspyrnu þegar liðsmenn strandgæslunnar kröfðust þess að fá að leita um borð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert