Rúmlega 40 fyrrum hátt settir starfsmenn Alþjóðabankans hafa sent dagblaðinu Financial Times bréf þar sem hvatt er til þess að Paul Wolfowitz, forstjóri bankans, segi af sér án tafar. Segir í bréfinu að Wolfowitz hafi glatað trausti starfsmanna bankans á öllum stigum og að hann geti ekki lengur starfað fyrir bankann sem skilvirkur leiðtogi.
Wolfowitz er sagður hafa glatað trausti og virðingu starfsfólks og valdið deilum meðal stjórnenda. Þá segir í bréfinu að samskipti hans við stjórn bankans séu stirð og að hans eigið mannorð hafi beðið hnekki. Segir í niðurlagi bréfsins að það eina sem Wolfowitz geti nú gert fyrir bankann, sé að segja af sér.
Kröfur hafa komið fram um að Wolfowitz segi af sér embætti eftir að í ljós kom, að náin vinkona hans, sem starfaði hjá Alþjóðabankanum þegar hann kom þangað til starfa árið 2005, fékk háa launahækkun í kjölfar þess að hún var send til að vinna að tímabundnum verkefnum hjá bandaríska utanríkisráðuneytinu.