Þau Nicolas Sarkozy og Ségolène Royal, sem fengu flest atkvæði í fyrri umferð forsetakosninganna í Frakklandi í gær, hefja kosningabaráttuna fyrir síðari umferðina þegar í dag. Sarkozy mun ávarpa fund í borginni Dijon í austurhluta Frakklands og Royal mun koma fram á fundi í Valence í suðurhluta landsins.
Bæði Sarkozy og Royal sögðu í gærkvöldi, að úrslitin sýndu að Frakkar þyrftu í síðari umferð kosninganna að velja um tvær ólíkar leiðir í stjórnmálum. Sarkozy sagðist vilja fylkja landsmönnum um nýjan draum um framtíð er byggist á bræðralagi þjóðarinnar allrar og hann ætlaði að vernda Frakka gegn ofbeldi, gegn ólöghlýðni, gegn óréttlátri samkeppni í viðskiptum.
Royal sagðist bjóða sig fram í þágu allra þeirra sem teldu það ekki aðeins mögulegt, heldur lífsnauðsynlegt að brjótast út úr kerfi sem gagnaðist engum lengur. Skoraði hún á alla, sem teldu unnt að betrumbæta Frakkland án þess að leika það hart, sem vildu manngildi ofar gildum kauphallarinnar og sem vildu binda enda á vaxandi óöryggi að standa saman.
Kjörsókn í fyrri umferð kosninganna í gær var nærri 85% sem er met. Sarkozy fékk 31,1% atkvæða, Royal 25,8%, Francois Bayrou 18,6% og Jean-Marie Le Pen fékk 10,5%.
Átta aðrir frambjóðendur voru í kjöri. Sagt er að sex þeirra, sem fengu samtals um 10% atkvæða, hafi lýst yfir stuðningi við Royal í síðari umferð kosninganna, sem fer fram 6. maí.