Pútín: Jeltsín var faðir lýðræðisins í Rússlandi

Vladimír Pútín Rússlandsforseti minntist í dag fyrrirennara síns Borísar Jeltsíns og sagði hann hafa verið föður lýðræðis í Rússlandi. Jeltsíns yrði ætíð minnst sem fyrsta forseta Rússneska ríkjasambandsins eftir hrun Sovétríkjanna. Tilkynnt var í Kreml í dag að Jeltsín verði borinn til grafar á miðvikudaginn.

Í stjórnartíð Jeltsíns „fæddist nýtt, lýðræðislegt Rússland, og frjáls þjóð opnaði dyrnar fyrir umheiminum. Ríki þar sem valdið er í raun og veru í höndum fólksins,“ sagði Pútín. Jeltsín hafi gegnt lykilhlutverki við að semja nýja stjórnarskrá fyrir Rússland, þar sem mannréttindi hafi verið efst á blaði og skoðana- og kosningafrelsi tryggt.

Jeltsín lést úr hjartaáfalli í dag, 76 ára.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert