Fangi í Guantánamo-búðunum ákærður fyrir morð

Bandaríkjaher hefur ákært Kanadamanninn Omar Khadr fyrir morð og fyrir að veita hryðjuverkamönnum aðstoð, njósnir og samsæri. Khadr, sem er tvítugur að aldri, var 15 ára þegar hann var handtekinn í Afganistan árið 2002 og sendur til Guantánamo-fangabúðanna á Kúbu.

Khadr verður dreginn fyrir sérstakan herdómstól, samkvæmt reglum, sem settar voru á síðasta ári og var beitt í mars þegar réttað var yfir Ástralanum David Hicks.

Khadr, sem er fæddur í Toronto, er sonur Ahmad Said al-Khadrs, sem talinn var vera fjármálastjóri hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda en hann mun hafa látið lífið í Pakistan.

Khadr var handtekinn árið 2002 eftir að hann særðist í skotbardaga nálægt Khost í austurhluta Afganistans. Hann er ákærður fyrir að hafa varpað handsprengju sem varð bandarískum hermanni að bana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert