Næst æðsti embættismaður kenningakerfis í Vatíkaninu fór í dag hörðum orðum um hjónaband samkynhneigðra, sem hann sagði af hinu illa, og sagði fóstureyðingar vera „persónugert hryðjuverk“. Fordæmdi hann „illvirki sem eru næstum ósýnileg“ vegna þess að fjölmiðlar matreiði þau sem „dæmi um framfarir í mannlífinu“.
Angelo Amato erkibiskup, sem er ritari Trúarkenninganefndar kardínála, sagði að fréttir blaða og sjónvarps minntu í mörgum tilvikum helst á „öfugsnúna mynd um hið illa“. Læknamiðstöðvar er framkvæma fóstureyðingar kallaði hann „sláturhús fyrir fólk“.
Vatíkanið og rómversk-kaþólska kirkjan á Ítalíu gagnrýna nú harkalega lagafrumvarp sem kveður á um að ógift pör, bæði af sama kyni og af sitthvoru kyninu, fái að einhverju leyti lögbundin réttindi. Hafa bæði kirkjan og ýmsir kaþólskir stjórnmálamenn gagnrýnt frumvarpið og sagt að það muni leiða til þess að hjónabönd samkynhneigðra verði lögleidd.