Maðurinn sem varð 32 að bana í Virginia Tech háskólanum í Bandaríkjunum hleypti af rúmlega 170 skotum og myrti 30 manns áður en hann svipti sig lífi. Árásin stóð í níu mínútur, að því er lögregla greindi frá í dag. Maðurinn hafði skömmu áður orðið tveim að bana á heimavist skólans.
En lögreglan sagði rannsókn málsins enn ekki hafa leitt í ljós neinar vísbendingar um hvers vegna morðinginn, Seung-Hui Cho, lét til skarar skríða gegn samnemendum sínum.
„Við höfum rætt hugsanlegar ástæður og kenningar og hvaðeina, en við höfum engar vísbendingar um neitt,“ sagði talsmaður lögreglunnar.
Lögreglan hafi leitað í tölvuskjölum, farsímtalaskrám og tölvupóstum. Auk þess hafi 500 einstökum gögnum verið safnað í Norris-byggingunni, þar sem ódæðisverkið var framið. En ekkert hafi fundist sem gefi til kynna ástæðu verksins eða að tengsl hafi verið á milli Chos og fórnarlamba hans.
Fyrsta fórnarlamb Chos var 18 ára nýnemi, Emily Hilscher, á heimavistinni. Lögregla segir ekkert hafa komið fram sem útskýri hvers vegna Cho hafi myrt Hilscher.
Lögreglan telur að rannsókn málsins kunni að standa í nokkra mánuði.