Vladimír Spidla, sem fer með jafnréttismál í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, sagði í umræðum á Evrópuþinginu í dag að pólskt lagafrumvarp um að bannað verði að ræða samkynhneigð í skólum þar í landi myndi brjóta gegn mannréttindasáttmála Evrópu, yrði það að lögum. Allmargir pólskir Evrópuþingmenn gengu út eftir að tillaga um að fresta umræðum um málið var felld.
Aðstoðarmenntamálaráðherra Póllands, Miroslaw Orzechowski, sagði í síðasta mánuði að í undirbúningi væri lagasetning sem myndi fela í sér að vísa mætti frá störfum kennurum sem héldu á loftið „samkynhneigðum viðhorfum“. Einnig kveður lagafrumvarpið á um að samtökum homma og lesbía verði bannað að dreifa í skólum upplýsingum um varnir gegn kynsjúkdómum.
Mannréttindasamtökin Human Rights Watch hafa einnig gagnrýnt þessar hugmyndir og sagt þær brjóta gegn grundvallarmannréttindum.