Flugliðar SAS flugfélagsins hafa lagt niður vinnu frá því í gær og fram að miðnætti til að mótmæla slæmum aðbúnaði sínum og afleitu vinnuumhverfi. Næstum allt flug til og frá Kaupmannahöfn liggur niðri og ráðleggur SAS á heimasíðu sinni farþegum sem áttu bókað flug í dag, að sleppa því að koma á flughöfnina á Kastrup. Þar kemur líka fram að aðeins örfáar ferðir frá Kaupmannahöfn til Stokkhólms verða farnar á vegum SAS flugfélagsins í dag.
Berlingske Tidende hefur eftir upplýsingafulltrúa fyrirtækisins að um 15 til 20 þúsund farþegar hafi orðið fyrir truflunum á ferðum sínum vegna verkfallsins. Um 400 til 500 farþegar máttu dúsa í nótt á Kastrup flugvelli þar sem SAS gat ekki skaffað hótelherbergi fyrir alla strandaglópa en flestir næturgestir þar fengu þó teppi og púða til að liggja á.