Grænfriðungar hleyptu í dag af stokkunum auglýsingaherferð í Bandaríkjunum gegn hvalveiðum og mun leikarinn Sir Anthony Hopkins koma fram í auglýsingunum, sem birtast m.a. í útsendingum MSNBC, Fox News og CNN Headline News í Washington. Herferðin tengist heimsókn Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, til Bandaríkjanna.
Karen Sack, verkefnastjóri Grænfriðunga í Bandaríkjunum, segir að Bandaríkin fari með forsæti á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins á þessu ári og það gefi gullið tækifæri til að binda enda á hvalveiðar Japana í Suðurhöfum.
Hægt er að skoða auglýsingarnar á heimasíðu Grænfriðunga.