Fulltrúi Alþjóðabankans rekinn frá Ekvador

Rafael Correa, forseti Ekvador
Rafael Correa, forseti Ekvador AP

Rafael Correa, forseti Ekvador, hefur fyrirskipað brottrekstur fulltrúa Alþjóðabankans úr landi og krefst þess að bankinn útskýri hvers vegna hætt var við hundrað milljóna dala lán, árið 2005 meðan Correa var fjármálaráðherra landsins. Correa segir að bankinn hafi hætt við lánveitinguna til að hefna fyrir umbætur í olíuiðnaði landsins. Bankinn hins vegar segir Ekvador hafa brotið gegn skilmálum bankans með því að leysa upp olíusjóð sem nota átti til að greiða af erlendum skuldum.

Vinstrimaðurinn Correa, sem kosinn var til forseta í nóvember sl. er hagfræðingur, menntaður í Bandaríkjunum. Hann hefur síðan hann var kosinn til starfa greitt upp skuldir landsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og vill að landið sé sem minnst upp á á erlenda lánadrottna komið.

Landið skuldar Alþjóðabankanum 748 milljónir, en Correa hefur hótað að hætta að greiða erlendar skuldir landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert