Mikil fylgisaukning sænskra jafnaðarmanna

Mona Sahlin.
Mona Sahlin. mbl.is/Árni Sæberg

Það er óhætt að segja að Svíar hafi tekið vel á móti Monu Sahlin, sem tók við embætti leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins í mars. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun, sem birt var í dag, mælist fylgi flokksins 46,3% og hefur ekki verið meira í 12 ár. Frá þingkosningunum sl. haust hefur fylgið aukist um 11,3 prósentur, sem svarar til nærri 630 þúsund kjósenda.

Samkvæmt könnuninni, sem Synovate Temos gerði, njóta jafnaðarmenn einkum mikils fylgis um miðbik landsins, á norðurhlutanum og meðal kvenna 45 ára og eldri. Fylgi flokksins mælist hins vegar um 33% á Stokkhólmssvæðinu.

Að sögn Dagens Nyheter er Jafnaðarmannaflokkurinn nú stærri en borgaralegu flokkarnir fjórir, sem mynda núverandi ríkisstjórn, til samans. Fylgi þeirra mælist nú samtals 39,4% en fylgi stjórnarandstöðuflokkanna þriggja mælist 56,4%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert