Óskírð börn ekki lengur í forgarði vítis

Benedikt páfi var formaður guðfræðinefndar Páfagarðs áður en hann var …
Benedikt páfi var formaður guðfræðinefndar Páfagarðs áður en hann var kjörinn páfi fyrir tveimur árum. Reuters

Alþjóðlega guðfræðinefnd Páfagarðs hefur sent frá sér skjal, sem ber yfirskriftina „Von um frelsun ungabarna sem deyja óskírð". Þar kemur fram að eftir áratuga rannsóknir sé ljóst að óskírð börn, sem deyja, lendi ekki í forgarði vítis eins og til þessa hefur verið haldið fram.

Í skjalinu kemur fram að hin hefðbundna útskýring á forgarði vítis sé „staður þar sem óskírð börn eyða eilífðinni án samskipta við Guð". Þetta segir guðfræðinefndin er óþarflega takmörkuð sýn sýn á frelsun. Það sé útbreiddari guðfræðilegur skilningur nú en áður, að Guð sé miskunnsamur og vilji frelsa allar mannverur. Útilokun saklausra barna frá himnaríki endurspegli ekki ást Krists á þeim. Kaþólska kirkjan mun þó áfram kenna, að skírnin sé hin eðlilega leið fyrir frelsun alls fólks og hvetur alla foreldra til að skíra nýfædd börn sín.

Niðurstaða nefndarinnar, sem er ráðgefandi fyrir Páfagarð, byggist á mikilli guðfræðilegri vinnu en í nefndinni sitja 30 menn. Skjöl nefndarinnar eru oft undanfari opinbera yfirlýsinga frá Vatíkaninu.

Eftir því sem kemur fram á fréttavef Catholic News Service, segir að spurningin um frelsun óskírða ungabarna hafi verið bráðnauðsynleg þar sem fjöldi óskírðra barna sem deyi, aukist stöðugt. Skýringin er sú, að sífellt fleiri trúlausir foreldrar eignist börn nú en áður og mörg önnur börn eru fórnarlömb fóstureyðinga. Í umræddu skjali er minnst á að fólki finnist erfitt að samþykkja að Guð sé góður og miskunnsamur en útiloki á sama tíma smábörn, sem ekkert hafa gert rangt.

Forgarður vítis hefur aldrei verið skilgreindur sem hluti af kenningarkerfi kirkjunnar og hvergi er minnst á þetta hugtak í núverandi kennslubókum kaþólsku kirkjunnar en það hefur þó lengi verið talin hluti af kenningum hennar. Á fimmtu öld ályktaði heilagur Ágústín að ungabörn sem létust óskírð væru dæmd til vistar í helvíti. Á 13. öld bjuggu guðfræðingar til hugtakið forgarð helvítis, sem væri staður fyrir óskírð börn. Þar myndu þau ekki þjást en væru svipt guðlegri sýn. Um aldaskeið hafa páfar og ráðgjafar kirkjunnar gætt þess, að skilgreina forgarðinn ekki sem hluta af kenningarkerfi.

Frétt Catholic News

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka