Vladímír Pútín, forseti Rússlands, sagði í dag að áform Bandaríkjamanna um að koma á fót eldflaugavarnakerfi í austurhluta Evrópu gætu leitt til gagnkvæms skaða og jafnvel eyðileggingar. „Þetta er ekki aðeins varnarkerfi heldur er þetta hluti af bandaríska kjarnorkuvopnakerfinu," sagði Pútín í samtali við fréttastofuna ITAR-Tass eftir að hafa átt fund með Vaclav Klaus, forseta Tékklands í Kreml í dag.
Tékkar og Pólverjar hafa lýst vilja til að leyfa Bandaríkjunum að koma eldflaugaskotpöllum og ratsjám fyrir á þeirra landssvæði.
Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC vísar Pútín með orðavali sínu til kalda stríðsins en þá reiddu sérfræðingar í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum sig m.a. á að kenningin um gagnkvæma eyðingu kæmi í veg fyrir kjarnorkustríð.
Pútín hótaði því í gær að hætta að framfylgja sáttmála, sem takmarkar hefðbundin vopn og herafla í Evrópu sem gerður var 1990. Atlantshafsbandalagið brást ókvæðavið og sagði Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri, að samningurinn væri einn af hornsteinum evrópsks öryggiskerfis.
Pútín hefur sakað Bandaríkin um að fara yfir landamæri sín og hann óttist aukna hernaðaruppbyggingu við landamæri Rússlands.