Svo virðist sem mikið hneykslismál sé í uppsiglingu í Washingtonborg í Bandaríkjunum eftir að fimmtug kona var ákærð fyrir að reka vændisþjónustu í borginni undanfarin 13 ár. Konan segist hafa veitt löglega kynlífsþjónustu og gefur í skyn að meðal 10 þúsund viðskiptavina fyrirtækis síns hafi verið margir háttsettir embættismenn í borginni.
Konan heitir Deborah Jeane Palfrey og er fimmtug að aldri. Þingfest hefur verið ákæra á hendur henni fyrir að reka vændishring í Washington í 13 ár
Palfrey segir hins vegar að fyrirtæki hennar, Pamela Martin and Associates, hafi veitt löglega erótíska þjónustu fyrir fullorðna og ekki hafi fallið skuggi á starfsemina á 13 ára ferli þess. Fyrirtækið var lagt niður á síðasta ári. Palfrey segir að fylgdarþjónustan, sem hún rak hafi ráðið háskólamenntaðar konur sem tóku þátt í löglegum hlutverkaleikjum. Fyrir það greiddu viðskiptavinir 275 dali á klukkustund, jafnvirði nærri 18 þúsund króna.
Palfrey hefur einnig gefið í skyn, að hún sé með símanúmer yfir 10 þúsund viðskiptavina á skrá og það kunni að koma ýmsum illa ef þau númer væru birt.
Í gær tilkynnti bandaríska utanríkisráðuneytið að Randall Tobias, sem verið hefur yfirmaður alþjóðlegrar þróunarstofnunar innan ráðuneytisins hefði sagt af sér af persónulegum ástæðum. ABC sjónvarpsstöðin sagði að Palfrey hefði látið af hendi nokkur símanúmer og Tobias hefði sagt af sér eftir að sjónvarpsstöðin hringdi í hann og spurði hann hvers vegna hann hefði hringt í Palfrey.
Tobias gegndi um tíma því hlutverki, sem George W. Bush, forseti, fól honum, að samræma aðgerðir gegn útbreiðslu alnæmis. Þá lagði hann mikla áherslu á að einstaklingar væru mökum sínum trúir og ættu frekar að leggja stund á skírlífi frekar en að nota smokka til að koma í veg fyrir útbreiðslu alnæmis.
Washington Post hefur í dag eftir lögmanni Palfrey, að fimm lögmenn hefðu haft samband við sig síðustu daga til að kanna hvort símanúmer skjólstæðinga þeirra væru á listanum yfir símanúmerin, sem Palfrey hefur undir höndum.
Palfrey hefur þegar upplýst, að hún muni stefna sjóliðsforingjanum Harlan Ullman fyrir rétt í máli sínu. Ullman þróaði m.a. svonefnda offors- og ógnarárásarkenningu, sem farið var eftir í innrás Bandaríkjamanna í Írak. Ullman sagði nýlega við sjónvarpsstöðina CNN, að þessar ásakanir væru ekki svaraverðar.