Læst inni í herbergi í 15 ár

Lögregla á Indlandi bjargaði í gær fertugri konu, sem hafði verið lokuð inni í litlu herbergi í 15 ár á heimili eiginmanns síns og tengdaforeldra sinna. Að sögn blaðsins Times of India var konunni haldið fanginni með þessum hætti vegna þess að hún gat ekki greidd tengdafjölskyldunni heimanmund.

Nágrannar konunnar í Baruipurhéraði í Vestur-Bengal kölluðu lögregluna til. Að sögn talsmanns lögreglu var konan nakin í herberginu þegar að var komið. Hún var flutt á geðdeild sjúkrahúss en áralöng einangrun hafði sett mark sitt á hana.

Lögreglan handtók eiginmann konunnar og tengdamóður. Svo virðist sem tengdafjölskyldan hafi ákveðið að loka konuna inni í herberginu til að reyna að kúga hana til að greiða hærri heimanmund.

Samkvæmt skýrslu sem stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér, verða um 70% af öllum giftum konum á Indlandi fyrir ofbeldi í hjónabandi og mörg þeirra mála tengjast deilum um heimanmund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert