Paul Wolfowitz, forstjóri Alþjóðabankans varði störf sín fyrir rannsóknarnefnd bankans í dag og sagðist hann fórnarlamb ófrægingarherferðar. Í yfirlýsingu sem hann gaf fyrir nefndinni sagðist hann ekki ætla að láta af störfum vegna „falskra ásakana”.
George W. Bush lýsti í dag stuðningi sínum við Wolfowitz á blaðamannafundi í Hvíta húsinu, og sagði að hann ætti að sitja áfram sem forstjóri bankans.
Kröfur hafa komið fram um að Wolfowitz segi af sér embætti eftir að í ljós kom, að náin vinkona hans, sem starfaði hjá Alþjóðabankanum þegar hann kom þangað til starfa árið 2005, fékk háa launahækkun í kjölfar þess að hún var send til að vinna að tímabundnum verkefnum hjá bandaríska utanríkisráðuneytinu.