Vinsældir bandaríska öldungadeildarþingmannsins Baracks Obama hafa aukist jafnt og þétt að undanförnu og könnun, sem Rasmussenstofnunin birti í gærkvöldi bendir til þess að Obama kunni að fá 32% atkvæða í forkosningum Demókrataflokksins sem hefjast í febrúar á næsta ári og Hillary Clinton 30%. Til þessa hefur fylgi Clintons ávallt mælst meira en Obama í könnunum.
Stofnunin bendir á að fylgisaukning Obama sé innan skekkjumarka. Þá var könnunin gerð áður fyrstu sjónvarpskappræður demókrata fóru fram í 26. apríl. Önnur könnun verður gerð í næstu viku, sem mælir viðbrögð kjósenda við þeim kappræðum.
Samskonar könnun, sem gerð var í mars sýndi, að Clinton hafði 12 prósentna forskot á Obama en síðan hefur munurinn minnkað jafnt og þétt.
Könnunin nú bendir til þess að Obama, sem er 45 ára, njóti aðallega fylgis meðal kjósenda 40 ára og yngri. Clinton, sem er 59 ára, er hins vegar sterkust í aldurshópnum 65 ára og eldri.
Sá frambjóðandi, sem næstur kemst þeim Obama og Clinton, er John Edwards, en fylgi hans mælist 17% nú.