Tæplega fimmtugur karlmaður hefur neitað fyrir dómstóli að hafa myrt fimm konur í Suffolk í fyrra. Maðurinn, Steve Wright frá Ipswich, er gert að sök að hafa myrt fimm vændiskonur sem voru á aldrinum 19 til 29 ára. Lík þeirra allra fundust skammt frá Ipswich á 10 daga tímabili í desember sl.
Wright, sem er fyrrum vörubílstjóri, mætti fyrir dómara í Ipswich í dag. Lögmenn ræða nú hvenær og hvar réttarhöldin yfir honum eiga að fara fram.
Rannsókn lögreglunnar í Suffolk er ein sú viðamesta í sögu landsins en alls tóku yfir 500 lögreglumenn þátt í rannsókninni frá 30 lögregluembættum, segir á vef BBC.
Rannsóknin hófst þegar tilkynnt var til lögreglu að Taniu Nicol væri saknað, en ekkert hafi til hennar spurst frá 30. október í fyrra.
15. nóvember rannsakaði lögreglan hvarf annarrar konu Gemmu Adams. Lík hennar fannst svo þann 10. desember sl. og skömmu síðar fannst lík Nicol. Lík vændiskonunnar Anneli Alderton fannst einnig þann 10. desember og tveimur dögum síðar fundust lík þeirra Paulu Clennell og Annette Nicholls.