Stjórnlagadómstóll Tyrklands ógilti í dag fyrstu umferð forsetakosninga, sem fór fram í tyrkneska þinginu sl. föstudag. Talsmaður ríkisstjórnarinnar sagði að stjórnarflokkurinn áformaði að hefja forsetakosningarnar á ný á miðvikudag en jafnvel hafði verið búist við tilkynningu um þingkosningar innan skamms.
Miklir flokkadrættir hafa verið í landinu vegna forsetakosninganna og hafa hundruð þúsunda manna tekið þátt í mótmælaaðgerðum og her landsins hefur hótað að grípa til aðgerða.
Stjórnarandstaða Tyrklands hunsaði atkvæðagreiðsluna á föstudag en þar tókst Abdullah Gul, utanríkisráðherra, ekki að fá 2/3 hluta atkvæða eins og tilskilið er til að ná kjöri. Mikil gremja ríkir í Tyrklandi yfir því, að Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra og leiðtogi stjórnarflokksins, skyldi bjóða Gul fram í embættið.
Stjórnlagadómstóllinn féllst á þau rök stjórnarandstöðunnar, að atkvæðagreiðslan á föstudag hefði ekki verið lögleg vegna þess að 2/3 hlutar þingmanna hefðu ekki verið viðstaddir kjörið.
Leiðtogar stjórnarflokksins hafa gefið til kynna, að verið sé að íhuga að boða til kosninga innan skamms til að draga úr spennu í landinu en ekki var minnst á það í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.