Dagbækur Ronalds Reagans, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, verða gefnar út á bók síðar í þessum mánuði. Kaflar úr dagbókunum voru birtir í tímaritinu Vanity Fair í vikunni og þar lýsir Reagan m.a. hugarástandi sínu eftir að reynt var að ráða hann af dögum og samskiptum sínum við Muammar Gaddafi, forseta Líbýu, sem Reagan kallar brjálaðan trúð.
Reagan handskrifaði daglega í dagbækur öll átta árin sem hann gegndi forsetaembættinu, 1981 til 1989. Eina eyðan í dagbókarfærslunum er eftir 30. mars 1981 eftir að skotið var á hann en um það skrifar Reagan: „Það er sárt að verða fyrir skoti."
Reagan skrifar hugleiðingar um allt milli himins og jarðar, þar á meðal um samband sitt við Ron son sinn, kommúnisma í Mið-Ameríku og kvikmyndaiðnaðinn í Hollywood. Þá fjallar hann um samband sitt við Míkhaíl Gorbatsjov, forseta Sovétríkjanna, en þeir áttu m.a. fund á Íslandi.
Það vekur athygli, að Reagan skammstafaði blótsyrði í bókinni. Þannig skrifar hann h--l og d--- í stað algengu ensku blótsyrðanna hell og damn.