Mugabe hótar kirkjuleiðtogum

Robert Mugabe, forseti Zimbabve.
Robert Mugabe, forseti Zimbabve. Reuters

Robert Mugabe, forseti Zimbabve, hefur varað biskupa í landinu við því að blanda sér í stjórnmálaátökin þar. Segir hann að með því væru þeir að fara út á hættulega braut og að geri þeir það verði komið fram við þá sem stjórnmálamenn en ekki andlega leiðtoga. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

Kaþólskir biskupar í landinu birtu um páskana opið bréf þar sem m.a segir að hætta sé á uppreisn í landinu verði ekki haldnar lýðræðislegar kosningar þar. „Það eru margir í Zimbabve reiðir og reiði þeirra er að safnast saman og verða að byltingu,” segir m.a í bréfinu.

Þá er þjáningum almennings í Zimbabve líkt við þjáningar gyðinga er þeir voru í þrældómi í Egyptalandi á tímum gamla testamentisins. „Þegar þeir verða pólitískir lítum við ekki lengur á þá sem trúarlega og samskipti okkar við þá verða þá í samræmi við það að um pólitísk öfl sé að ræða og því er þetta mjög hættuleg braut sem þeir hafa valið sér,” sagði Mugabe er hann var spurður um bréfið.

Fyrr á þessu ári hvatti Pius Ncube, erkibiskup í Bulawayo, íbúa landsins til að flykkjast út á göturnar til að krefjast afsagnar Mugabe og kvaðst hann vera reiðubúinn til að standa gegn stormandi byssukjöftum ef nauðsyn bæri til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert