Fjórir slösuðust þegar óeirðir brutust út í öryggisfangelsi í Lundúnum í dag. Í fangelsinu dvelja m.a. nokkrir meintir íslamskir hryðjuverkamenn, þar á meðal menn sem grunaðir eru um að hafa ætlað að sprengja sprengjur í neðanjarðarlestum og strætisvagni í júlí árið 2005.
Óeirðirnar í Belmarsh fangelsinu brutust út eftir að einn fanganna neitaði að afhenda fangaverði fartölvu. Föngum er stundum leyft að nota tölvur til að vinna að málsvörn sinni en þeir fá ekki aðgang að netinu.
Að sögn talsmanns fangelsisins tókst að lægja öldurnar fljótt. Þeir sem meiddust voru fluttir á sjúkrahús.