Rússar fordæma ESB vegna minnisvarðadeilu

Minnisvarðinn umdeildi
Minnisvarðinn umdeildi Reuters

Rússar fordæmdu í dag Evrópusambandið fyrir að ávíta ekki eistnesk yfirvöld fyrir meðhöndlun þeirra á rússneskumælandi Eistlendingum og „vegsömun fasisma”. Þetta kom fram í harðorðri yfirlýsingu sem rússneska utanríkisráðuneytið sendi frá sér, segir m.a. í henni að ESB hafi brugðist með aðgerðarleysi sínu gegn aðgerðum nýverið þar sem Eistlendingar og Lettar hafa leitast við að „endurmeta afleiðingar síðari heimsstyrjaldarinnar.”

Í yfirlýsingunni segir einnig að yfirvöld í Brussel hafi litið fram hjá ögrunum Letta og Eistlendinga, en þær séu móðgun, ekki aðeins við Rússa, heldur alla þá sem séu andsnúnir fasisma og öfgahyggju í Evrópu.

Þá segir að afleiðingar stjórnarstefnu landanna sé mismunun, sem hrundið hafi af stað mótmælum rússneskumælandi minnihlutahópa, sem fái ekki atvinnu og hafi litla félagslega möguleika.

Kreppa er í samskiptum Rússa og Eistlendinga eftir að yfirvöld í Tallinn ákváðu að fjarlægja styttu sem stóð í miðborginni til minningar um hermenn rauða hersins sem létust í seinni heimsstyrjöldinni, þar hafði minnisvarðinn staðið sextíu ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert