Minnihlutastjórn Íhaldsflokksins í Kanada nýtur nú lítið meira fylgis meðal kjósenda en erkifjendurnir í Frjálslynda flokknum, samkvæmt skoðanakönnun sem birt var í dag. Hefur stjórnin sætt harðri gagnrýni vegna loftslagsmála og fregna um pyntingar í Afganistan.
35% þátttakenda í könnuninni, sem Ipsos-Reid gerði fyrir Canwest-fjölmiðlasamsteypuna, sögðust myndu kjósa Íhaldsflokkinn, en 34% sögðust myndu kjósa Frjálslynda flokkinn.
Framkvæmdastjóri Ipsos-Reid sagði undanfarinn hálfan mánuð hafa verið slæman fyrir ríkisstjórn Stephens Harpers forsætisráðherra. „Þessi ríkisstjórn hefur alveg frá byrjun verið með hjálpardekk, og þau eru farin að losna.“
Stjórn Harpers hefur átt í vök að verjast undanfarið vegna ásakana afganskra stjórnvalda um að fangar sem kanadískir hermenn tóku í Afganistan hafi sætt pyntingum af hálfu afganskra fangavarða. Stjórnarandstaðan hefur ennfremur gagnrýnt stjórnina harðlega fyrir að bregðast ekki nógu afdráttarlaust við loftslagsbreytingum.