Nicolas Sarkozy, frambjóðandi hægrimanna í forsetakosningunum í Frakklandi, lýsti yfir sigri og sagði að tímabært væri fyrir hann að endurgjalda Frakklandi það sem landið hefði gert fyrir hann. Þegar búið var að telja um helming atkvæða hafði Sarkozy fengið rúmlega 53% atkvæða en Ségolène Royal, frambjóðandi sósíalista, rúmlega 46%. Kjörsókn var um 85%.
„Franska þjóðin hefur kosið breytingar," sagði Sarkozy, sem hét því, að hann yrði forseti allra Frakka. Fréttaskýrendur segja, að hægt sé að túlka kosningaúrslitin þannig, að Sarkozy hafi fengið umboð Frakka til að koma í framkvæmd ýmsum efnahagsumbótum, sem þykja sjálfsagðar í öðrum löndum en hafa vafist fyrir franska stjórnkerfinu. Sarkozy hét því í kosningabaráttunni, að segja skilið við stjórnmálastefnu fortíðarinnar og beita sér fyrir skattalækkunum og aukinni atvinnuþátttöku Frakka.
Sarkozy sagði í ræðu á fundi með stuðningsmönnum sínum í kvöld, Bandaríkin gæti reitt sig á vináttu Frakka. Þá hvatti hann einnig Bandaríkjamenn til að taka við leiðtogahlutverki í aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og sagði, þetta yrði forgangsmál í Frakklandi.
Um Afríku sagði Sarkozy: „Við viljum aðstoða Afríku í baráttunni gegn sjúkdómum, hungursneyð, fátækt og við að lifa í friði," sagði Sarkozy og bætti við að Frakkar og Afríkubúar muni taka sameiginlega ákvörðun um innflytjendastefnu.
Þá hét Sarkozy því, að Frakkar muni standa að baki öllum, sem er sæta ofsóknum einræðisherra og harðstjórnar.