Könnun sem gerð var meðal bandarískra hermanna í Írak hefur leitt í ljós að margir þeirra myndu ekki tilkynna yfirvöldum ef félagi þeirra særði eða banaði óbreyttum borgurum. David Petraeus yfirhershöfðingi sagði að frekari menntunar hermannanna væri þörf.
„Við þurfum að herða menntunarátakið,” sagði Petraeus. Hann bætti við að herinn þyrfti að vera vakandi fyrir þeim vandamálum sem fylgja því álagi sem hermenn sem dvelja allt að 15 mánuði í stríðshrjáðu landinu væru undir.
„Við megum ekki fara niður á sama plan og óvinurinn,” sagði Petraeus í viðtali í Bagdad. Hann sagðist vera að skrifa skýrslu sem rannsakar siðfræði vígvallarins. Svar hans kemur í kjölfar könnunar sem Pentagon birti í síðustu viku.
Petraeus sagðist hafa miklar áhyggjur af niðurstöðu könnunarinnar.