Óeirðir brutust út víða í Frakklandi í gærkvöldi eftir að niðurstaða forsetakosninganna í gær lágu fyrir. Óeirðalögregla beitti táragasi en mótmælendur köstuðu grjóti, og í einu tilfelli sýru, á lögreglumenn. Það gerðist í borginni Nantes og slösuðust tveir lögreglumenn lítillega. 22 voru handteknir í borginni.
Í París urðu átök á Bastillutorginu þar sem um 5000 stuðningsmenn Ségolène Royal, frambjóðana sósíalista, höfðu safnast saman til að bíða kosningaúrslitanna. Um 300 ungmenni, sem höfðu bundið klúta fyrir andlitið, köstuðu flöskum og grjóti í lögreglu sem svaraði með táragasi, vatnsbyssum og kylfum.
Kveikt var í brúðu sem átti að tákna Nicolas Sarkozy, sem sigraði í kosningum og síðan var hún rifin í sundur og traðkað á henni.
Í úthverfum Parísar, þar sem miklar óeirðir urðu árið 2005, var kveikt í yfir 100 bílum.
Lögregla beitti táragasi til að dreifa hópum ungmenna í borgunum Marseille og Lille. Í síðarnefndu borginni var kveikt í nokkrum bílum. Í Bordeaux slösuðust nokkrir lögreglumenn í átökum við yfir 2000 ungmenni, 18 voru handteknir. Í Lyon slösuðust tugir manna í átökum og 25 voru handteknir. Kveikt var í um 40 bílum og búðargluggar voru brotnir. Einnig urðu ólæti í borgunum Nancy og Metz.
Stuðningsmenn Sarkozys héltu hins vegar mikla sigurhátíð í vestari hluta miðborgar Parísar. Sarkozy fékk rúmlega 53% atkvæða í gær en Royal tæplega 47%.