Varað við fólksfjölgun í Kína

Kínverjar eru 20% jarðarbúa.
Kínverjar eru 20% jarðarbúa. Reuters

Kínversk yfirvöld hafa varað við því að íbúum landsins geti fjölgað mjög ört þar sem mörg pör eru farin að virða að vettugi reglur sem settar var ætlað að takmarka barneignir við eitt barn á par.

Zhang Weiqing, hjá fólksfjölgunar og fjölskyldustofnuninni í Kína, segir að bættar efnahagshorfur hjá fólki geti leitt til þess að fleiri börn fæðist í landinu.

Nýrík pör hafa nefnilega efni á því að greiða þær sektir sem á þau eru lögð eignist þau fleiri en eitt barn. Þá segir hann að pör í dreifbýlli héruðum landsins séu farin að ganga í hnapphelduna fyrr en áður var.

Um 1,3 milljarður manna býr í Kína, eða 20% mannkyns.

Yfirvöld þar í landi vilja ólm draga úr fólksfjölguninni. Hin umdeilda fjölskyldustefna, sem var tekin upp á áttunda áratug síðustu aldar, er ætlað að takmarka barneignir para sem búa í þéttbýli við eitt barn, en pör sem búa í dreifbýli mega eignast tvö börn.

Sú staða er hinsvegar komin upp að nýríkum Kínverjum hefur fjölgað á þéttbýlum stöðum landsins og efnuð pör hafa nú efni á því að brjóta reglurnar. Þau borga einfaldlega þær sektir sem á þau eru lögð eignist þau fleiri en eitt barn.

Samkvæmt nýrri rannsókn hefur ríku og frægu fólki fjölgað í Kína mjög ört, og nú eiga um 10% Kínverja, sem teljast til þess hóps, þrjú börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert