Einn lést og tveir særðust þegar háskólanemi hóf skothríð á heimavist við ríkisháskóla Kaliforníu í Fresno í Bandaríkjunum. Fjölmiðlar vestanhafs segja árásarmanninn vera 19 ára nema í afbrotafræði við skólann. Sérsveitarmenn umkringdu íbúðina þar sem árásin átti sér stað og hafa síðan reynt að ná árásarmanninum út.
Tímum við skólann hefur ekki verið aflýst vegna skotárásarinnar þar sem hættan er talin afstaðin.
Sá látni var 19 ára fyrrum nemandi við skólann en þeir særðu eru 19 og 22 ára. Þeir hafa fengið að fara heim af sjúkrahúsi. Ekki er ljóst hvað gerðist, en fréttastofan AFP hefur eftir ónefndum heimildum að rifrildi hafi brotist út vegna tölvuspils.