Rannsóknarnefnd bankaráð Alþjóðabankans er sögð hafa komist að þeirri niðurstöðu að Paul Wolfowitz, forstjóri bankans, hefði gerst sekur um brot á starfsreglum bankans með afskiptum sínum af starfsframa og launamálum ástkonu sinnar sem starfar hjá bankanum. Niðurstöður nefndarinnar hafa verið kynntar fyrir Wolfowitz en ekki enn verið gerðar opinberar. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Heimildarmaður CNN segir niðurstöðuna þá að reglur hafi verið brotnar en tilgreinir ekki nánar með hvaða hætti.
Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, staðfesti í dag að ásakanirnar á hendur Wolfowitz sköpuðu mikinn þrýsting á hann en að það væri bankastjórnarinnar að ákveða hvort honum verði vikið úr starfi. Didier Reynders, fjármálaráðherra Belgíu tók í sama streng og sagi að engin ákvörðun yrði tekin fyrr en niðurstöðurnar hefðu verið gerðar opinberar. Hann bætti því þó við að ómögulegt fyrir bankann að senda menn um allan heim til að predika um góða stjórnarhætti ef þeir væru ekki virtir innan bankans.