Brasilíska lögreglan hefur sakað bandaríska flugmenn lítillar einkaþotu um að hafa valdið árekstri við Boeing 737 farþegaþotu í 37 þúsund feta hæð 29. september síðastliðinn. Flugmönnum Embraer Legacy einkaþotunnar tókst að lenda henni þó að stélið hafi rifnað af við áreksturinn en Farþegaþota Gol flugfélagsins hrapaði og létust 154 í flugslysinu.
Bandarísku flugmönnunum, Joseph Lepore og Jan Pala var haldið í varðhaldi í Brasilíu í tvo mánuði eftir slysið og þeir hafa verið sakaðir um að hafa valdið dauða annarra með ógát en þeir hafa alla tíð haldið því fram að þeir hafi haft leyfi flugumferðarstjóranna til að fljúga í þessari ákveðnu hæð.
Yfirvöld íhuga enn hvort sækja skuli flugmennina tvo til saka.
Samkvæmt skýrslum sérfræðinga munu báðir aðilar eiga eitthvað sökótt í þessu máli, flugumferðarstjórar og flugmenn.
Flugritar beggja vélanna hafa verið kannaðir en það eina sem hefur verið gert opinbert um þær upplýsingar sem þar er að finna er að viðvörunarkerfi einkaþotunnar sem hefði átt að vara við nálægð farþegaþotunnar virkaði ekki sem skyldi.
Lögfræðingar flugmannanna segja að ábyrgðin liggi hjá flugumferðarstjórunum og hafa bent á að þeir séu allir í brasilíska hernum og að það sé herinn sem jafnframt hafi séð um slysarannsóknina.