Dæmdar í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða vinkonu sína

Tvær ástralskar táningsstúlkur voru í dag dæmdar í lífstíðarfangelsi fyrir að myrða 15 ára vinkonu sína. Morðingjarnir voru 16 ára er þær frömdu ódæðið í fyrra. Þær sögðust við yfirheyrslur hafa vitað að það væri rangt að fremja morð, en samt hefði þeim „fundist það allt í lagi“ að kyrkja vinkonu sína.

Stúlkan sem þær myrtu hét Eliza Jane Davis. Eftir að þær höfðu verið með henni í samkvæmi ákváðu þær að myrða hana þar sem hún lá sofandi í næsta herbergi. Verjendur stúlknanna segjast ekki hafa hugmynd um hvað þeim hafi gengið til að fremja morð, en fram kom við yfirheyrslur í síðasta mánuði að þær höfðu rætta það sín í milli að hvorugri þeirra þætti neitt rangt við að fremja morð.

Stúlkurnar þrjár áttu heima í námubænum Collie í Vestur-Ástralíu. Eftir að stúlkurnar myrtu Davies grófu þær lík hennar undir húsi í bænum og tilkynntu til lögreglunnar að hennar væri saknað. Þær þóttust taka þátt í leitinni að henni, en varð fljótlega ljóst að líkið myndi finnast fyrr eða síðar og þá gáfu þær sig fram við lögregluna.

Saksóknari sagði stúlkurnar tvær ekki hafa sýnt nein merki um iðrun. Þær hafi „skipulagt morðið af yfirvegun, íhygli, tilfinningaleysi og löngun til að finna hvernig þær væri að myrða einhvern.“

Stúlkurnar geta ekki sótt um reynslulausn fyrr en eftir 15 ár á bak við lás og slá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert