Óeirðir brutust út í Frakklandi þriðju nóttina í röð þar sem fólk mótmælti forsetakjöri Nicolasar Sarkozy. Að sögn innanríkisráðherra landsins var kveikt í um 200 bifreiðum og um 80 manns voru teknir höndum.
„Undanfarna þrjá daga, frá því forsetakjörið fór fram, hefur ástandið hér verið óásættanlegt,“ sagði Francois Baroin, innanríkisráðherra landsins. Hann sakar vinstriöfgamenn um að kynda undir óeirðirnar.
Að sögn lögreglu kom víða til átaka í París, t.d. á Bastillutorginu en þar hefur þungamiðja átakanna verið frá því Sarkozy var kjörinn Frakklandsforseti sl. sunnudag.
„Í nótt sem leið var kveikt í um 200 bifreiðum og það voru rétt rúmlega 80 handtökur. Það er augljóst að pólitískur hvati liggur að baki þessu og tengist vinstriöfgasinnum,“ sagði Baroin í viðtali við franska útvarpið.
„Kjósendur hafa talað. Við höfum séð þróttmikið lýðræðið að störfum í okkar landi. Breytingar á afstöðu fólks eiga að endurspeglast í kjörkassanum og ekki á götum úti.“
Á milli 200 til 300 mótmælendur lokuðu Bastillutorginu í París síðla dags í gær og hrópuðu: „Sarko fasisti!“ Fólk sem býr í grenndinni segir að lögreglan hafi girt svæðið af og að það hafi tekið um tvær klukkustundir að koma á friði.