Írsk unglingsstúlka vann fóstureyðingarmál

Barnshafandi írsk unglingsstúlka vann mál sitt fyrir hæstarétti í dag, en hún hafði krafist þess að fá að ferðast til Bretlands til að fara í fóstureyðingu. Stúlkan er komin fjóra mánuði á leið, en heili og höfuðkúpa þess þroskast ekki eðlilega og myndi fóstrið því ekki lifa af nema fáeina daga eftir fæðinguna.

Írsk heilbrigðisyfirvöld höfðu meinað stúlkunni um að fara til Bretlands í fóstureyðingu en írsk lög banna fóstureyðingar þrátt fyrir greiningu fósturgalla.

Heilbrigðisyfirvöld breyttu svo afstöðu sinni í síðustu viku og sögðust ekki ætla að setja sig upp á móti því að stúlkan ferðaðist til Bretlands, svo fremi sem dómari og foreldrar legðu blessun sína á ákvörðun hennar.

Talið er að um.þ.b. 7.000 írskar konur fari til Bretlands á ári hverju til að fara í fóstureyðingu, málið hefur vakið mikið umtal um lög sem mörgum þykir kominn tími til að breyta.

Samkvæmt lögum frá árinu 1992 er konum heimilt að sækjast eftir upplýsingum um fóstureyðingar og ferðast til Bretlands til að fara í fóstureyðingar. Hæstiréttur landsins úrskurðaði enda að engin stjórnarskrárleg eða lagaleg rök væru fyrir því að meina stúlkunni að ferðast til Bretlands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert