Kona var stöðvuð með 86 poka með 1,5 kíló af kókaíni innvortis á Gardemoen flugvelli í Ósló í Noregi. Konan er 26 ára og kom með flugi frá heimalandi sínu, Nígeríu. Ef einn pokanna hefði rifnað hefði það dugað til að bana konunni.
Aftenposten skýrir frá því á vefsíðu sinni að konan hafi sagt yfirvöldum að hún hafi gert þetta til að hjálpa börnum sínum í Nígeríu.
Norsk tollayfirvöld telja að þetta magn sé met. Í það minnsta hefur kona aldrei verið tekin með jafn mikið magn af eiturlyfjum innvortis en karlmaður var eitt sinn stöðvaður í Kristiansand með 1,6 kíló.
Konan var stöðvuð á miðvikudaginn í síðustu viku. Farið var með hana á sjúkrahús. Síðan var hún dæmd í fjögurra vikna varðhald. Hún á yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsi.