Breskir veðmangarar sögðust í gær hafa tekið fjölmörgum veðmálum í tengslum við þá yfirlýsingu Tonys Blairs að hann hygðist láta af embætti forsætisráðherra 27. júní.
Veðjað var um heiti endurminninga Blairs, hvaða leiðtogi yrði fyrstur til að lofsyngja hann og um litinn á bindinu hans er hann tilkynnti ákvörðunina. Einnig var veðjað um hvað Blair tæki sér næst fyrir hendur og líklegast þótti að hann færi í fyrirlestraferð til Bandaríkjanna. Nokkrir veðjuðu á að hann færi í tónleikaferð með Ugly Rumours, hljómsveit sem hann söng með á námsárunum, en aðrir að hann yrði knattspyrnustjóri Newcastle United, liðsins sem hann heldur með.