Fulltrúadeild Bandaríkjaþings samþykkti í gær lagafrumvarp sem ætlað er að fjármagna stríðsaðgerðir í Írak til loka júlí. Samkvæmt frumvarpinu yrði frekari fjármögnun háð því hvernig mál þróast í Írak, en þetta hefur ekki verið nákvæmlega skilgreint.
George W. Bush Bandaríkjaforseti segist ætla að beita neitunarvaldi og koma í veg fyrir að lögin verði samþykkt. Hann gaf hinsvegar í skyn að það væri mögulega hægt að komast að málamiðlun, en hann sagði að það væri skynsamlegt að það fjármögninin yrði miðuð við sýnilegan árangur.
Bush hefur þegar beitt lagafrumvarp neitunarvaldi sem ætlað er að fjármagna brottflutning bandarískra hermanna frá Írak.
Lagafrumvarpið var samþykkt í fulltrúadeildinni, þar sem demókratar eru í meirihluta, með 221 atkvæði gegn 205.
Þrátt fyrir að lagafrumvarpið hafi verið samþykkt í fulltrúadeildinni eru flestir repúblikanar á móti því. Það er því ólíklegt að frumvarpið verði samþykkt í Öldungadeildinni þar sem meirihluti demókrata er mun minni. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.