Breska ríkisútvarpið greinir frá því að ellefu lögreglumenn sem tóku þátt í skotárás á Jean Charles de Menezes sem skotin var til bana í London þann 22.júlí á síðasta ári, myndu ekki fá neinar áminningar vegna málsins. Lögreglumennirnir héldu að Menesez væri að undirbúa sjálfsmorðsárás þegar þeir skutu hann átta sinnum. Svo reyndist ekki vera. Fjölskylda mannsins segir niðurstöðuna vera svívirðilega.
Lögreglumennirnir voru meðal fimmtán lögreglumanna sem tóku þátt í umsátri um íbúð Menezes degi eftir misheppnaðar sprengjuárásir í London. Innra eftirlit lögreglunnar í London yfirheyrði þá menn sem tóku þátt í að skjóta á hinn 27 ára gamla Menezes. Hann var skotin átta sinnum við Stockwell neðanjarðarlestarstöðina í London. Ekki hefur verið tekin ákvörðun hvað verður fjóra yfirlögregluþjóna sem einnig tóku þátt í umsátrinu. En lögregluyfirvöld lýstu því þó yfir að einn lögreglumaður myndi fá tiltal um stjórnunaraðferðir á vettvangi.
Fjölskylda Menezes segir niðurstöðuna vera svívirðilega og enn einn löðrungur í andlit fjölskyldunnar. Réttindasamtök hafa tekið í sama streng og fordæmt ákvörðun innra eftirlits lögreglunnar.