Kúrdi frá Íran, sem er búsettur í Drammen í Noregi, var handtekinn þegar hann var að heimsækja móður sína í Baneh í Íran en lögregla þar sá að maðurinn drakk bjór. Maðurinn var færður á lögreglustöð, dæmdur til að þola 130 svipuhögg og var refsingunni fullnægt á staðnum, að sögn Aftenposten, sem birtir myndir af manninum í dag.
Aftenposten segir að Mamand Mamandy hafi sótt um hæli í Noregi árið 1999 og búi þar nú með fjölskyldu sinni. Hann segir við blaðið, að þau hafi verið á ferðalagi með fjölskyldunni í Íran og verið að grilla úti undir kvöld. Lögregla ók framhjáa í þann mund sem Mamandy fékk sér bjór.
Blaðið hefur eftir prófessor við Óslóarháskóla, að staða mannréttindamála í Íran hafi versnað frá því Mahmoud Ahmadinejad tók við embætti forseta landsins fyrir tveimur árum. Hart sé nú tekið á ýmsu, sem áður var látið átölulaust, svo sem áfengisneyslu.