Æ fleiri danskir karlar kvænast til Taílands

Gríðarlega mikil fjölgun hefur orðið á hjónaböndum danskra karla og taílenskra kvenna í Taílandi á undanförnum árum og á síðustu tveimur árum hefur fjöldi dansk-taílenskra hjónavígslna þar tvöfaldast. Fjöldi nýrra hjónabanda Dana og Taílendinga í Danmörku hefur hins vegar staðið í stað á milli ára og árið 2006 voru þau 195. 300 slík hjónabönd voru hins vegar skráð í Danmörku árið 2001 en þeim fækkaði mjög eftir það og er sú þróun m.a. rakin til hertra reglna um landvistarleyfi útlendinga í Danmörku. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

Frá árinu 2004 til 2006 fjölgaði hjónavígslum danskra karla og taílenskra kvenna í Taílandi úr 106 á ári í 194 og það sem af er þessu ári hafa 90 slík hjónabönd verið skráð í landinu. Er ástæða fjölgunarinnar m.a. talin vera sú að æ fleiri Danir dvelja nú langdvölum í Taílandi og komast þar í kynni við heimafólk. Þá er það talið hafa einhver áhrif að nýlega voru landvistarreglur í Taílandi hertar og geta nú erlendir ríkisborgarar einungis einu sinni fengið framlengingu á þriggja mánaða ferðamannalandvistarleyfi sínu á hverju ári. Mun sveigjanlegri reglur gilda hins vegar um maka Taílendinga.

Þá vekur það athygli að einungis í nokkrum prósentum dansk-taílenskra hjónabanda er konan dönsk og karlinn taílenskur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka